Um okkur

Síðustu ár höfum við slegist í för með ferðaiðnaðinum á Íslandi með uppbyggingu á ferðaþjónustunni okkar í Möðrudal á Fjöllum. Árið 1999 hófst saga Ferðaþjónustunnar Fjalladýrðar á Möðrudal með tilkomu afgirts tjaldstæðis. Í kjölfarið voru gistihúsin í torfbæ byggð á þeim stað sem gamli bærinn hafði staðið forðum. Var hugmyndin með torfbæar útlitinu að gefa fólki tækifæri á að upplifa að einhverju leiti andrúmsloft fyrri tíma og gista í lokrekkjum.

Fjallakaffi sem er kaffihús og veitingastaður var stofnað af Eðvaldi Jóhannssyni og Vilborgu Vilhjálmsdóttur árið1976. Þeirra arftakar hafa verið nokkrir í gegnum tíðina. Um það leiti er færa átti þjóðveginn (2001) frá Möðrudal tekur Vilhjálmur (oftast nefndur Villi) við rekstrinum af Ástu Sigurðardóttur og er óhætt að segja að þar hafi hann tekið við góðu búi þar sem Ásta og hennar fyrirennarar höfðu skapað Fjallakaffi gott orðspor síðustu áratugi. Árið 2003 var farið að huga að því að byggja nýtt Fjallakaffi og kom ekkert annað til greina en burstabær með sama lagi og gistiaðstaðan í baðstofunum.

Upp frá því hefur torfbæjarárátta Vilhjálms verið óstöðvandi og torfbæunum hefur fjölgað smá saman eftir því sem þjónustan hefur aukist við ferðamanninn.

Þar sem við búum í miklu návígi við norður hálendið og þann ómótstæðilega öræfaanda sem þar er að finna ákváðum við að nýta reynslu okkar af fyrri störfum og áhugamálum og bjóða ferðafólki uppá hálendisferðir frá Möðrudal á fjallabílum. Náttúruskoðun og upplifun í samspili við leiðsögn heimafólks er okkar megininntak. Ferðamenn geta síðan valið sér ferð eftir því hvort þeir kjósa langar eða stuttar göngur, hvaða náttúruperlum þeir sækjast eftir að upplifa hvort sem er að vetrar eða sumarlagi.