Dagurinn verður tekinn snemma í þessari ferð. Stigið verður uppí notalega jeppana klukkan sjö og ekið 2½ klst. leið um óbyggðirnar og stefnan tekin á Vatnajökul sjálfan. Við Kverkjökul munum við skoða hinn síbreytilega Íshelli sem áin Volga hefur átt þátt í að móta. Því næst göngum við yfir Kverkjökulinn í átt að Löngu Fönn en hún leiðir okkur að hinu einstæða hverasvæði sem er að finna í jöklinum í um 1800 m hæð. Á leiðinni gefur að líta stórbrotinn skriðjökulinn þegar horft er ofan frá Vestari Kverkinni. Hveradalur bíður okkar ofarlega í Kverkfjöllunum, þar sem kyngikraftar náttúrunnar krauma og litafegurð og andstæður haldast í hendur svo ekki sé talað um útsýnið. M.a. sést yfir jökulfljótið, sem dreifir silfurþráðum sínum yfir svartan sandinn. Áætlað er að gangan taki um 8 klst. Á leið okkar til baka í Möðrudal stöldrum við í Hvannalindum og setjum okkur í spor útilegumanna sem þar höfðust við á öldum áður. Komið verður til baka í Möðrudal á milli kl 8 og 9 að kvöldlagi.
Vinsamlegast athugið að lágmarksfjöldi til þess að staðfesta ferð er 4 manns.
–
–