Askja

Lagt verður af stað frá Möðrudal kl. 7:30 og ekið sem leið liggur yfir brúuð jökulfljótin tvö, Kreppu og Jökulsá á Fjöllum, í átt til Dyngjufjalla. Þau hafa að geyma náttúruvættið Öskju, þar sem mikil eldsumbrot hafa mótað þessa einstöku smíð fram á okkar daga. Þegar komið verður að Dyngjufjöllum munum við skoða hið kyngimagnaða Drekagil áður en við keyrum síðasta spölinn að Öskjuopinu. Þaðan göngum við um hálftíma gang á gólfi Öskju þar til við okkur blasir sjálft Öskjuvatn og sprengigígurinn Víti. Í Víti er vatnið ylvolgt og ekki úr vegi að baða sig þar og bera á sig meinhollan kísilinn sem þar er að finna. Næsti viðkomustaður er Herðubreiðarlindir en þar munum við njóta náttúrulífs og sérstöðu friðlandsins auk þess að skoða vistarverur eins frægasta útilegumanns Íslandssögunnar, Fjalla-Eyvindar. Á heimleiðinni ökum við um hraunbreiður og yfirárnar Lindaá og Grafarlandaá áður en við komumst til byggða í Möðrudal um kl. 18.

Vinsamlegast athugið að lágmarksfjöldi til þess að staðfesta ferð er 4 manns.